Af hverju rannsókn núna ?

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík virðast leggja í vana sinn, að auglýsa erfiðar breytingar á skipulagi á þeim tímum þegar minnstar eru líkur á að almenningur taki eftir því, þ.e. um sumarleyfistímann.

Svo var um breytingu á skipulagi útivistarsvæðisins á Gufuneshaugum. Almenningur gat komið með athugasemdir á tímabilinu 20. júní - 1. ágúst 2007. Eingöngu kom fram ein athugasemd, þe. frá undirrituðum. Upprunalega skipulagstillagan var einnig auglýst um sumartíma og líklega komu fáar athugasemdir fram þá (þetta fór alveg framhjá mér eins og öðrum).

Í minni athugasemd bendi ég á að eitur- og spilliefni og útivistarsvæði fyrir börn fari ekki saman. Skipulagsyfirvöld virðast taka athugasemdina alvarlega og fagna ég því og fékk ég formlegt svar nú í vikunni.

Mikilvægast er þó hvernig landnýtingin verður og hversu heilsusamlegt það sé fyrir íbúa Grafarvogs og spyrjum því að leikslokum.

Lagði ég til við skipulagsyfirvöld að útivistarsvæðið yrði fært nær byggðinni og Strandvegurinn færður vestur fyrir Gufunesbæ, þe. slétt yrði úr beygjunni á Strandvegi og vegurinn færður fjær byggðinni og útivistarsvæði sett þar á milli, útivistarsvæði sem næði upp með Hallsvegi (mótmælti ég einnig stækkun athafnasvæðisins á Gylfaflöt á kostnað útivistarsvæðisins) og tengdist íþróttasvæðinu í Dalhúsum. Strandvegurinn yrði því beinn þar sem beygja er á honum núna og kæmi inn á Hallsveginn aðeins neðar. Strandvegurinn yrði því til að skilja á milli spilliefnanna á Gufuneshaugum og útivistarsvæðis Grafarvogsbúa.

Þó skipulagsyfirvöld sæju marga kosti við tillögu mína, þá sáu þeir ýmsa galla sem þeir mátu meira (hvaða mælistika var notuð ?). Ég fer daglega um þetta svæði og virðist mér að töluverður tími sé síðan þeir hjá Skipulaginu voru í Grafarvogi og skoðuðu svæðið fótgangandi. Þá fæst önnur tilfinning fyrir umhverfinu en loftmyndir geta sýnt en þær segja því miður ekki alla söguna og virðast þeir ekki átta sig nógu vel á hæðarlínum og öðrum staðháttum á þessu svæði.

Að lokum hvet ég skipulagsyfirvöld að mæta á svæðið og finna bestu lausnirnar fyrir íbúa Grafarvogs og setji fyrirhugaða tengivegi á þessu svæði, vegna Sundabrautar, alla í umhverfismat.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband